Tuesday, June 24, 2014

Mamma

Þessi póstur er búinn að eiga lengi heima í drafts. Nú er kominn tími til að klára hann og smella á publish. Það getur verið erfitt að birta færslur sem eru persónulegar. Þessar sem fá mann til að klökkna við að skrifa. En sjálfri finnst mér svoleiðis færslur skemmtilegar og langar þess vegna að smella inn nokkrum pælingum um móðurhlutverkið í dag. 

Ég er svo ótrúlega margt en þegar ég er kynni mig og segi nafnið mitt er það næsta í röðinni og það sem skilgreinir mig helst að ég er mamma. Ég valdi það sjálf og held að það sé besta ákvörðun sem ég hef tekið. Dagarnir eru auðvitað oft erfiðir en það er oft á þessum erfiðu dögum sem maður sér það fallega og góða við þetta hlutverk. Að koma börnunum í rútínu eftir rútínuleysi og finna það hversu gott þeim þykir það að vera akkúrat þar. Þar sem er röð og regla. Eða þegar barn á erfitt með skapið og að hjálpa því að ná takinu aftur. Vera búin að læra á það hvernig á að tækla slíkt og finna að barnið treystir á mann til þess. Án þess einu sinni að biðja um aðstoð. Að geta svo rætt málin. Enn betra er er þó þegar hægt er að koma í veg fyrir svona köst en við höfum algerlega séð að bestu vopnin gegn slíku eru nægur svefn, góð næring og að barnið viti til hvers sé ætlast. Oftast gengur þetta vel en það eru alltaf þessar undantekningar.

Breyttur líkami. Alla daga er ég að vinna í tilfinningum um nýja líkamann. Það að taka nýja líkamann í sátt. Ég má vera duglegri við að gera æfingar og styrkja mig. Ég finn ekki tíma en ég þarf að koma því að.

Fleira er að mér leiðist aldrei, er aldrei einmanna og verð mind blown oft á dag. Að sjá og heyra hvað þessar litlu manneskjur eru magnaðar í einu og öllu. Svo er dýrmætt að stelast til þess að brosa framan í eiginmanninn og reyna að komast hjá því að skellihlægja. Það gengur auðvitað misvel. Stundum er bara ekki annað hægt!

Ég trúi því að ég sé besta mamman fyrir börnin mín. Við pössum saman.

Stór partur af því að vera mamma er að átta sig á mikilvægi þess að sýna gott fordæmi og vera fyrirmynd. Það fær mann til að langa til þess að standa sig á öllum sviðum og þess vegna hefur það gert mig að betri manneskju að verða mamma. 

Ég vil kenna börnunum mínum að vera sterk, hugrökk, heiðarleg, dugleg og að geta skemmt sér í öllum aðstæðum. Listinn getur auðvitað haldið áfram endalaust en akkúrat núna er þetta það sem stendur uppúr.

Svo er mikilvægt að fá ekki samviskubit yfir öllu mögulegu og hugsa það frekar að gera betur næst. Ég er alltaf að kenna þeim og þau eru alltaf að kenna mér.

Kv. Dúdda <3

7 comments:

 1. Frábær texti Dúdda! :) Takk fyrir orðin þín og hugleiðingar.
  Kveðja,
  Sif

  ReplyDelete
 2. Dásamlega fallegar hugsanir og orð. Ég er alveg sammála þér, sjálf á ég 18 mánaða dóttur og við gætum ekki verið meira "meant to be". Ég er svo heppin! Móðurhlutverkið er það besta :) KNÚS á þig og yndislega fallegu fjölskylduna þína :)

  kv. Guðrún (algerlega ókunnug :) )

  ReplyDelete
 3. Í dag vil ég þakka þér fyrir að hafa snúið við erfiðum degi hjá bugaðri móður. Eftir að hafa lesið þetta breytist bugunin yfir í gleði og stolt. Og bjartsýni á að morgundagurinn gefi mér góðar minningar og ánægða drengi. Milljón takk!!
  Kv. Eva Björk :)

  ReplyDelete
 4. Dásamlegur texti Dúdda <3 sammála Evu Björk með það hvað þetta gladdi mitt hjarta eftir viðburðarríkan dag :)
  Kv. Hanna Siv

  ReplyDelete
 5. Gott þú ýttir á "publish" <3

  ReplyDelete