Ég elska ekki gardínur svo heima hjá mér eru yfirleitt bara tjöld til að draga upp og niður. Ég nota þá gardínustangirnar bara fyrir eitthvað annað.
En ef baðherbergið hjá manni er með stóra glugga þá þarf auðvitað að geta falið sig á bak við eitthvað. Á baðinu hjá okkur voru dökkar-viðar-rimlagardínur en þegar við komum aftur heim í haust var það með því fyrsta sem ég gerði að fjarlægja þær. Svo hengdi ég upp blúnduefni en leyfði því að vera tvöföldu. Oftast eru snúrurnar fullar af þvotti svo ég hef ekki miklar áhyggjur af því að eitthvað sjáist í gegn en með þessu er mun bjartara þarna inni. Birtan flæðir bara inn :-)
En ég er mjög hrifin af blúndum og einn stór bútur af blúndu hefur undanfarið verið nýttur í að búa til tjald inní leikherbergi þar sem sængurver, dýna, klemmur og gardínustöngin gegna lykilhlutverki ásamt blúndunni. Bæti maður svo þremur glöðum molum í blönduna er þetta ansi góð uppskrift af skemmtun!
Lampinn sem ég föndraði skerminn á í fyrra er enn hér heima til að gleðja mig. Einn af mínum uppáhaldshlutum sem ég hef föndrað. Finnst líka svo gaman að færa svona hluti um íbúðina, gefa þeim þannig nýtt líf. En hann býr núna í stofunni þar sem hann kastar þessu dásamlega mynstri uppá veggina.
Eigiði góðan þriðjudag mín kæru!
Kv. Dúdda <3
No comments:
Post a Comment