Thursday, June 18, 2015

17. júní

Mér finnst nauðsynlegt að eyða allavega parti af 17. júní úti í náttúrunni. Í ár ákváðum við mamma að fara ekki langt og löbbuðum við því uppí Keldeyrardal, hér rétt fyrir ofan húsið hjá mömmu og pabba. Kolur, smalahundurinn á bænum fékk að koma með og skemmti sér mjög vel og börnunum þótti mjög skemmtilegt að sjá hann hlaupa um og velta sér út um allt.  

Myndirnar sem teknar voru eru ekki beint sumarlegar en blómin sýna þó að það sé sumar. Að vísu heitir þetta blóm Vetrarblóm- sennilega vel passlegt.
  
Mamma sýndi börnunum hvernig týna á fjallagrös. Núna eru þau að þorna og í kvöld á að gera te.

 Elmar var rosalega duglegur og gekk alla leiðina sjálfur. Hann er svo mikið yndi.


Vð gengum upp að seli sem er þarna uppi í dalnum. Þar voru kindurnar mjólkaðar í gamla daga.

Rosa flott hleðsla sem er alveg heil. Þetta voru einu fánarnir sem við gátum nálgast þennan daginn. Mjög litlir en allir glaðir með sitt.

Ísland. Við  tíndum svolítið af þjóðarblóminu okkar, Holtasóley í vegkantinum til þess að skreyta tertuna með.

Hér er okkar útgáfa af Þjóðgerði. Við gátum hvorki keypt jarðaber né bláber hér á staðnum en svo skreyttum við tertuna með blómum. Þessi terta er alger bomba! Mæli með! Hlakka til að smakka aftur með berjum :-)

Um kvöldið skelltum við Erla Maren okkur á Kayak enda ekkert annað í stöðunni þar sem sjórinn var spegilsléttur og hlýtt úti. Kv. Dúdda <3
No comments:

Post a Comment